
25. september 2025
Það sem af er þessu ári hefur KVH getað stutt við ýmislegt í nærumhverfinu okkar. Húnaþing vestra státar af mjög öflugu og virku félagsstarfi hjá eldri borgurum og var það Kaupfélaginu bæði ljúft og skylt að styrkja þau til kaupa á liðsbúningum sem þau notuðu á Landsmóti UMFÍ 50+ í sumar og á ýmsum íþróttaviðburðum um land allt. Kvenfélagið Iðja átti 90 ára afmæli og bauð til veglegrar veislu í Ásbyrgi af því tilefni. Gaman var að sjá hversu vel var mætt og mikill metnaður í afmælisveislu félagsins. KVH lét ekki sitt eftir liggja og lagði sitt að mörkum til veislukaffisins. Menningarfélag Húnaþings fór með hóp frábæra dansara í keppni út fyrir landsteinana í sumar og var það gleðilegt að KVH gat létt undir bagga í stórum útgjaldaliðum sem falla til í svona ferðum. Eldur í Húnaþingi á sinn fasta sess í styrkveitingum KVH sem og hin ýmsu íþrótta og tómstundafélög á svæðinu okkar. Einnig á æskulýðsstarf kirkjunnar sinn fasta sess í styrktarplönum Kaupfélagsins. Gærurnar Nytjamarkaður hafa svo notið góðs af tiltekt í KVH og er það fagnaðefni að mikil meðvitund er orðin um að “eins manns rusl er annars manns auður.” Þetta er aðeins lítið brot af því sem við reynum að gera og létta undir með því sem á sér stað í samfélaginu okkar og ekki má gleyma því að þetta væri ekki hægt ef að KVH ætti ekki sína tryggu viðskiptavini. Fyrir það erum við svo sannarlega þakklát. Svo lengi sem mögulegt er mun KVH halda áfram að leggja sitt að mörkum til að létta undir og taka þátt í því sem vel er gert í samfélaginu okkar. Við þökkum viðskiptin, samstarfið og megi KVH lengi lifa.

7. maí 2025
KVH hafa borist veglegar og góðar gjafir undanfarnar vikur. Fyrst ber að nefna veglega og þarfagóða gjöf frá Gærunum. Þær komu færandi hendi og afhentu KVH hjartastuðtæki sem er nú komið upp á vegg og tilbúið til notkunar sem við svo sannarlega vonumst til að þurfa aldrei að nýta en algerlega nauðsynlegt að hafa við höndina ef vá ber að höndum. Gærunum eru færðar sérstaklega góðar og miklar þakkir fyrir þessa góðu gjöf. Starfsfólk KVH fékk svo girnilega og bragðgóða sendingu frá Kótilettunefndinni og Verslunarminjafélaginu Bardúsu. Þau komu og færðu starfsfólkinu dásamlega bragðgóðar kaffiveitingar með þakklæti fyrir veittan styrk og góða þjónustu. Starfsfólk færir þeim miklar þakkir fyrir veitingarnar og þakklætið.

22. apríl 2025
Aðalfundur KVH var haldinn þriðjudaginn 15. apríl sl. Dagskrá fundarins var með venjubundnum hætti og var aðsókn með ágætum. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2024 var samþykktur og er hann aðgengilegur hér á síðunni okkar. Hægt er að nálgast hann á þessari slóð: kvh-arsreikningur-2024-undirr.pdf Breyting varð á stjórn KVH. Úr stjórn gekk Guðný Helga Björnsdóttir og eru henni færðar þakkir fyrir hennar störf í stjórn KVH undanfarin ár. Í hennar stað kom inn í stjórn Birkir Snær Gunnlaugsson og er hann boðinn velkominn til starfa. Kaupfélag Vestur Húnvetninga þakkar félagsmönnum fyrir mætingu á deildar-, og aðalfundi félagsins þetta árið og hlakkar til áframhaldandi samstarfs. f.h stjórnar KVH Þórunn Ýr Elíasdóttir Kaupfélagsstjóri

Eftir Herdís Harðadóttir
•
19. febrúar 2025
Nú má sjá "nýja" sendibíl KVH vel merktan á rúntinum með varning frá KVH. Við erum ánægð með útkomuna á þessum merkingum og vonandi fellur hún vel í kramið hjá öllum okkar velunnurum. Einnig er komin "nýr" gluggi á austurhlið KVH sá fyrsti af sex. Næsti gluggi er væntanlegur fyrir páskana og við stefnum á að vera búin að endurnýja alla gluggana í lok sumars eða allra síðasta lagi í haust. Það var reynt að fara eftir sem flestum uppástungum sem fram komu í glugga hugmyndakeppninni og við vonumst til að íbúar verði ánægðir með það sem upp kemur. Endilega lítið eftir nýjum gluggum þegar þið eigið leið um KVH.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
24. janúar 2025
Nú geta aukakrónu safnarar Landsbankans, safnað og notað aukakrónur hjá KVH. Samstarfið hófst strax í dag fyrsta opnunardag nýs árs. Krónurnar sem safnast hjá KVH jafngilda 7% afslætti. Við vonumst til að þetta veki lukku hjá aukakortshöfum og fögnum samstarfinu við Landsbankann. Gleðilegt aukakrónu ár.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
12. desember 2024
Árið 2024 var viðburðarríkt ár hjá KVH. Kaupfélagsstjóraskipti urðu í byrjun febrúar þegar Björn Líndal lét af störfum og Þórunn Ýr Elíasdóttir tók við. Í byrjun sumars sagði verslunarstjóri til fjölda margra ára Jenný Duch starfi sínu lausu og kvaddi í lok sumarsins. Frystirinn undir Sjávarborg var svo endanlega tæmdur og slökkt var á kerfunum sem sinnt hafa sínu hlutverki í rúmlega 100 ár og þjónað fjölda mörgum. Með því lauk sögu frystihólfaleigu KVH. Í kjölfar þess að kælar KVH sem starfað höfðu hér nánast frá upphafi biluðu var lagt í að kaupa nýja kæliskápa sem nú eru komnir í gagnið en eftir á að klára uppsetningu þeirra að innan og finna út hvernig raðast best í þá o.s.frv. Farið var á fullt í að koma KVH inn í framtíðina og er búið að fjárfesta í rafrænu hillumiðakerfi sem byrjað er að innleiða og mun sú innleiðing halda áfram næstu daga og mánuði og að ending verður bæði kjörbúð og byggingavörudeild komin með rafræna hillumiða á flest allar sínar vörur. Í þessu felst mikill tímasparnaður, sparnaður á útprentun svo ekki sé minnst á fagurfræðilegt sjónarmið. Sendibíll KVH (snattarinn) var kominn vel til ára sinna og var viðhalds og viðgerðarkostnaður farinn að verða mikill svo fundinn var nýrri snattari sem er nú farinn að rúnta um götur bæjarins og bíður eftir fallegum KVH merkingum. Einnig var lyftari pakkhússins endurnýjaður enda var hina sömu sögu að segja af þeim gamla og af gamla snattaranum. Það gladdi okkur mjög að geta selt bæði gamla bílinn sem og gamla lyftarann. Allar krónur uppí kostnað eru ávallt vel þegnar. Ný hjólastólalyfta var tekinn í notkun við Sjávarborg. Unnið var að nýjum gluggum á Austurhlið hússins og er fyrsti glugginn af sex kominn upp og er ætlunin að því verki verði að fullu lokið í lok sumarsins. Efnt var til hugmyndakynninga innan samfélagsins og gaman var að sjá hversu góð þátttaka var í því verkefni og greinilegt var að hugur fólks um hvað það vill sjá í þessum gluggum var nánast öll á sömu línu og reynum við eftir fremsta megni að bregðast við því. Hér er stiklað á stóru á því sem gerst hefur í KVH á árinu sem senn er að líða og tökum við fagnandi við nýju ári með öllum þeim áskorunum sem því mun fylgja. Starfsfólk KVH óskar félagsmönnum öllum, viðskiptavinum sínum og samstarfsaðilum Gleðilegs nýs árs með kærri þökk fyrir árið sem er að líða. Án ykkar væri þetta ekki hægt. F.H. Kaupfélags Vestur Húnvetninga Þórunn Ýr Elíasdóttir Kaupfélagsstjóri.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
21. nóvember 2024
KVH þakkar fyrir frábærar undirtektir og hugmyndir vegna glugga á austurhlið hússins. Það kom svo sannarlega í ljós að fólk hefur skoðun á Kaupfélagshúsinu og útliti þess. Það virtist vera samhljómur þeirra sem tóku þátt í hugmyndatillögum að hafa EKKI auglýsingar í þessum gluggum. Flestir hölluðust að náttúrumyndum, sögu staðarins og Kaupfélagsins. Ákveðið var að fara þessa leið, blanda saman sögu, menningu og listum, sem gerði okkur kleift að sækja um styrk til SSNV þar sem þetta mun tengjast menningu og sögu staðarins. Vonandi fæst sá styrkur samþykktur og gluggarnir verði okkur öllum til ánægju, fróðleiks og prýði fyrir húsið sjálft. Vinna við nýjar gluggamerkingar er þegar komin af stað og standa vonir til að fyrsti "nýi glugginn" nái að líta dagsins ljós fyrir jólin. Ef það næst ekki, þá strax á nýju ári. Nýir gluggar munu svo bætast við jafnt og þétt og vonandi verður komið nýtt útlit í alla glugga þegar sumarið gengur í garð. Við þökkum góðar tillögur og enn betri undirtektir.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
13. ágúst 2024
KVH og Verfærasalan færðu félagsmiðstöðinni Órion veglegt fótboltaspil að gjöf í júlímánuði. Vonast er til að gjöfin eigi eftir að koma að góðum notum verða mörgum börnum og unglingum til ánægju og gleði á komandi starfsári. Til hamingju Órion með flotta fótboltaspilið ykkar og góða skemmtun.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
27. júní 2024
Kaupfélag Vestur Húnvetninga hefur um árabil boðið viðskiptavinum sínum uppá fjölbreytt úrval af lambakjöti á mjög góðum kjörum enda afurðir heima úr héraði. Einnig höfum við boðið uppá folaldakjöt í ýmsum útfærslum frá Sláturhúsi KVH. Við erum því stolt af að geta nú boðið uppá nautakjöt heima úr héraði. Hægt verður að fylgjast með bæði á heimasíðu okkar og á Fésbókinni þegar nautakjötið kemur í sölu en annars munum við að öllu jöfnu reyna að eiga frosið. Von er á fersku nautakjöti um miðjan júlí en nú þegar eru frosnar nautalundir, sirloin og innralærisvöðvar ásamt ýmsum öðrum steikum komið í sölu og 140gr hamborgarar bætast við eftir helgi. Nautakjötið kemur frá Bæ í Hrútafirði. Frábærar viðtökur hafa verið við Mumin, Línu og Emil vörunum okkar og er fyrsta sendingin okkar nánast að verða búin en örvæntið ekki því meira nýtt mun bætast við strax eftir helgina. Við minnum líka á að við erum að bjóða girðingarefni á frábærum verðum og hvetjum alla sem þurfa á slíku að halda að hafa samband við sölumennina okkar. Við vonumst til að þessar frábæru viðbætur og góðu verð leggist vel í mannskapinn og hlökkum til að sjá ykkur í KVH.

Eftir Herdís Harðadóttir
•
7. júní 2024
Föstudaginn 31.maí sl. lagði Kraftur, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur leið sína á Hvammstanga. Opið hús var í grunnskólanum þar sem fólk kom saman og perlaði armbönd með áletruninni “Lífið er núna” sem er ein helsta fjáröflunarleið Krafts og eru armböndin eingöngu framleidd af sjálfboðaliðum. KVH lagði til drykkjarföng fyrir áhugasama perlara þennan dag og var gaman að sjá hversu margir lögðu leið sína í skólann til að perla. KVH sendir baráttukveðjur til Krafts og þakkar fyrir komuna á Hvammstanga.
