Opnunartímar

 • Áframhald leigu vinnumálastofnunar á efri hæð KVH

  Þann 17. janúar sl var undirritaður leigusamningur milli Vinnumálastofnunar og Kaupfélags Vestur Húnvetninga (KVH) um áframhaldandi leigu skrifstofuhúsnæðis undir starfsemi Vinnumálastofnunar á Hvammstanga til næstu 10 ára. Jafnframt hefur KVH samþykkt að ráðast í breytingar á húsnæðinu á árinu 2024 að ósk Vinnumálastofnunar. Breytingarnar fela m.a. í sér nýtt loftræstikerfi, öruggara vinnurými starfsfólks, vinnurými verða opin, næðis- og viðtalsrými verða sett upp ásamt því að kaffistofa og fundarherbergi verða stækkuð.

  Á meðfylgjandi mynd eru f.h. KVH Gunnar Þórarinsson stjórnarformaður KVH, Björn Líndal Traustason fráfarandi kaupfélagsstjóri og Þórunn Ýr Elíasdóttir nýráðin kaupfélagsstjóri og Leó Örn þorleifsson og Þórdís Helga Benediktsdóttir frá Vinnumálastofnun.

 • Nýr kaupfélagsstjóri ráðinn til Kaupfélags Vestur - Húnvetninga (KVH)

  Fyrr í haust sagði Björn Líndal Traustason upp störfum sem kaupfélagsstjóri KVH.

  Stjórn Kaupfélags Vestur-Húnvetninga hefur ráðið Þórunni Ýr Elíasdóttur í starf kaupfélagsstjóra Kaupfélags Vestur-Húnvetninga. Þórunn hefur víðtæka reynslu af uppbyggingu og rekstri fyrirtækja og stofnanna og var hún í yfir 30 ár rekstrar og síðar fjármálastjóri hjá heildversluninni Kemis ehf sem var fjölskyldufyrirtæki í eigu foreldra hennar. Einnig átti hún og rak blómaverslun í Breiðholtinu og var svo skrifstofu og fjármálastjóri hjá Samhjálp félagasamtökum. Undanfarin ár hefur hún sinnt bókhaldsstörfum í ráðhúsi Húnaþings vestra. Þórunn er útskrifuð með diplómu í fjármálum og rekstri frá Háskólanum í Reykjavík. Og á að baki hin ýmsu viðurkenndu námskeið í markaðsmálum, tölvu og tæknimálum. Einnig er hún útskrifuð frá Ráðgjafaskóla Íslands.

  “Kaupfélagið stendur frammi fyrir ýmsum breytingum eins og flestir hafa tekið eftir og eins hafa hraði og breytingar í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu búið til nýjar áskoranir fyrir tilvist kaupfélagsins sem á sér farsæla sögu frá upphafi síðustu aldar. Ég tek við starfinu með eftirvæntingu og hlakka til að bætast í starfsmannahóp KVH og takast á við allar þær áskoranir sem starfinu fylgja. Þakklæti fyrir sýnt traust á verkefninu er mér líka ofarlega í huga á þessum tímamótum” segir Þórunn Ýr.

  Þórunn mun hefja störf á fyrstu mánuðum nýs árs.

  F.h. stjórnar KVH

  Gunnar Þórarinsson

 • lokun frystiklefa

  Ágætu viðskiptavinir KVH

  Í áratugi hefur Kaupfélagið rekið frystigeymslur og leigt viðskiptavinum sínum. Þar er um að ræða frystihólfin í kjallara gamla sláturhússins sem fjölmargir íbúar hafa nýtt sér, svo og frysta á efri hæð, þar hafa bændur og aðrir getað geymt skrokka og fengið þá sagaða eftir þörfum.

  Megnið af þeim búnaði sem hefur verið nýttur til að halda frosti á þessum geymslum er margra áratuga gamall og frystilagnir sömuleiðis. Nú er ljóst að líftími þessa búnaðar er á enda. Rekstur þessara frystigeymslna hefur verið þungur og í raun hefur þessi þjónusta ekki staðið undir sér í langan tíma. Endurnýjun á tækjum og lögnum er, eins og gefur að skilja, ekki físileg við viðvarandi taprekstur enda má reikna með að kostnaður við endurnýjun hlaupi á tugum milljóna.

  Af þessum ástæðum hefur stjórn KVH tekið ákvörðum um að þessum frystum verði lokað eigi síðar en í lok þessa árs. Ekki verður tekið við kjötskrokkum í frysti frá sláturhúsi næsta haust en SKVH mun annast sögun fyrir sína viðskiptavini. Sömuleiðis verður ekki hægt að leigja hólf nema til áramóta. KVH hvetur notendur þessara frystigeymslna til að gera ráðstafanir í tíma, tíminn er jú fljótur að líða og eins og áður sagði mun KVH hætta þessari þjónustu í síðasta lagi um næstu áramót.

  Kaupfélagið útvegar frystikistur og frystiskápa m.a. frá Heimilistækjum, Ormsson og Smith & Norland.