Um KVH

Kaupfélag Vestur-Húnvetninga svf. (KVH) er meðal elstu fyrirtækja á Íslandi, stofnað þann 20. mars 1909 á Hvammstanga. Félagssvæði þess er Húnaþing vestra. Félagið hét upphaflega Verzlunarfélag Vestur-Húnavatnssýslu en nafni þess var breytt í Kaupfélag Vestur-Húnavatnssýslu við sameiningu Verzlunarfélagsins og Sláturfélags Vestur-Húnavatnssýslu. Tilgangur félagsins er að; annast á sem hagfelldastan hátt viðskipti og þjónustu fyrir félagsmenn, efla atvinnulíf í héraðinu, viðhalda og útbreiða þekkingu samvinnuhugsjónarinnar við að leysa félagsleg viðfangsefni og að styrkja framtíð félagsins með því að treysta fjárhag þess. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Sigurðsson frá Svertingsstöðum og var hann jafnframt fyrsti kaupfélagsstjóri. Aðrir stjórnarmenn kjörnir á stofnfundi voru, Tryggvi Bjarnason frá Kothvammi og Gunnar Kristófersson frá Valdarási.

KVH er samvinnufélag og hefur sem slíkt komið að mörgum mikilvægum verkefnum til eflingar atvinnu og byggð á þeirri rúmu öld sem það hefur starfað. KVH hefur rekið verslun frá upphafi og rak í áratugi sláturhús. Einnig stóð KVH fyrir stofnun Mjólkursamlags á Hvammstanga sem tók til starfa 1959 en starfsemi þess var hætt 2002. KVH hafði áður rekið rjómabú og haft með höndum smjörframleiðslu. KVH kom að stofnun Brauð- og kökugerðarinnar ehf. á Hvammstanga sem tók til starfa 1980, en starfsemi þess var hætt 2018. Þá stóð KVH fyrir útgerð og fiskvinnslu, rak flutningsdeild og innlánsdeild ásamt því að hafa komið ótal öðrum verkefnum til eflingar atvinnu, menningar og byggðar á starfssvæði sínu.

Nú rekur KVH kjörbúð, byggingarvöruverslun og búvöruverlsun. Auk þess hýsir KVH verslun Vínbúðarinnar og hefur með höndum afgreiðslu fyrir Vörumiðlun ehf. KVH á einnig og rekur fasteignir sem hýsa m.a. starfsemi Selaseturs Íslands, Fæðingarorlofssjóðs og veitingastaðarins Sjávarborgar. KVH á einnig hlut í nokkrum fyrirtækjum m.a. 50% hlut í Sláturhúsi KVH ehf. (SKVH). 

Kaupfélagsstjóri er Þórunn Ýr Elíasdóttir

Stjórn KVH 

Samþykktir KVH

Ársreikningar KVH frá 2010

Stefnur og önnur gögn