KVH Leggur lið

Það sem af er þessu ári hefur KVH getað stutt við ýmislegt í nærumhverfinu okkar. Húnaþing vestra státar af mjög öflugu og virku félagsstarfi hjá eldri borgurum og var það Kaupfélaginu bæði ljúft og skylt að styrkja þau til kaupa á liðsbúningum sem þau notuðu á Landsmóti UMFÍ 50+ í sumar og á ýmsum íþróttaviðburðum um land allt.

Kvenfélagið Iðja átti 90 ára afmæli og bauð til veglegrar veislu í Ásbyrgi af því tilefni. Gaman var að sjá hversu vel var mætt og mikill metnaður í afmælisveislu félagsins. KVH lét ekki sitt eftir liggja og lagði sitt að mörkum til veislukaffisins.

Menningarfélag Húnaþings fór með hóp frábæra dansara í keppni út fyrir landsteinana í sumar og var það gleðilegt að KVH gat létt undir bagga í stórum útgjaldaliðum sem falla til í svona ferðum.

Eldur í Húnaþingi á sinn fasta sess í styrkveitingum KVH sem og hin ýmsu íþrótta og tómstundafélög á svæðinu okkar. Einnig á æskulýðsstarf kirkjunnar sinn fasta sess í styrktarplönum Kaupfélagsins.

Gærurnar Nytjamarkaður hafa svo notið góðs af tiltekt í KVH og er það fagnaðefni að mikil meðvitund er orðin um að “eins manns rusl er annars manns auður.”

Þetta er aðeins lítið brot af því sem við reynum að gera og létta undir með því sem á sér stað í samfélaginu okkar og ekki má gleyma því að þetta væri ekki hægt ef að KVH ætti ekki sína tryggu viðskiptavini.

Fyrir það erum við svo sannarlega þakklát. Svo lengi sem mögulegt er mun KVH halda áfram að leggja sitt að mörkum til að létta undir og taka þátt í því sem vel er gert í samfélaginu okkar.

Við þökkum viðskiptin, samstarfið og megi KVH lengi lifa.