Nýr kaupfélagsstjóri ráðinn til Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (KVH)

Fyrr í haust sagði Björn Líndal Traustason upp störfum sem kaupfélagsstjóri KVH.

Stjórn Kaupfélags Vestur-Húnvetninga hefur ráðið Þórunni Ýr Elíasdóttur í starf kaupfélagsstjóra Kaupfélags Vestur-Húnvetninga. Þórunn hefur víðtæka reynslu af uppbyggingu og rekstri fyrirtækja og stofnanna og var hún í yfir 30 ár rekstrar og síðar fjármálastjóri hjá heildversluninni Kemis ehf sem var fjölskyldufyrirtæki í eigu foreldra hennar. Einnig átti hún og rak blómaverslun í Breiðholtinu og var svo skrifstofu og fjármálastjóri hjá Samhjálp félagasamtökum. Undanfarin ár hefur hún sinnt bókhaldsstörfum í ráðhúsi Húnaþings vestra. Þórunn er útskrifuð með diplómu í fjármálum og rekstri frá Háskólanum í Reykjavík. Og á að baki hin ýmsu viðurkenndu námskeið í markaðsmálum, tölvu og tæknimálum. Einnig er hún útskrifuð frá Ráðgjafaskóla Íslands.

“Kaupfélagið stendur frammi fyrir ýmsum breytingum eins og flestir hafa tekið eftir og eins hafa hraði og breytingar í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu búið til nýjar áskoranir fyrir tilvist kaupfélagsins sem á sér farsæla sögu frá upphafi síðustu aldar. Ég tek við starfinu með eftirvæntingu og hlakka til að bætast í starfsmannahóp KVH og takast á við allar þær áskoranir sem starfinu fylgja. Þakklæti fyrir sýnt traust á verkefninu er mér líka ofarlega í huga á þessum tímamótum” segir Þórunn Ýr.

Þórunn mun hefja störf á fyrstu mánuðum nýs árs.

F.h. stjórnar KVH

Gunnar Þórarinsson